Borgar Arkitektúr sig?

 

Í dag eru margir sem hafa réttindi til að hanna mannvirki. Í þeim hópi arkitektar, bygginartæknifræðingar, verkfræðingar o.s.frv. Þessir hópar hafa menntun hverjir á sínu sviði og þá helst tæknilega til dæmis í lagna- eða burðarþoli. Arkitektar eru sérmenntaðir í hönnun mannvirkja útfrá umhverfislegum gæðum. Með því er átt við náttúrulegum eiginleikum eins og sólarátt, birtuskilyrði innandyra, veðurskilyðrum, umhverfisvænum gildum, notagildi mannvirkja, framtíðarnotkun, listrænum gildum og fleira. Það má því færa rök fyrir því að með því láta arkitekta hanna mannvirki er verið að fjárfesta fyrst og fremst í gæðum.

Í vinnu sinni eru arkitektar mjög meðvitaðir um heildarmynd verkefnisins, ekki aðeins hvernig notandinn mun upplifa mannvirkið heldur einnig hvaða áhrif það hefur á umhverfi sitt og samfélag hvort sem það er í þéttbýlli borg eða í dreifðari náttúru. Það þýðir að oft á tíðum fer meiri tími í undirbúning og greiningarvinnu á staðnum svo að sem best útkoma sé á verkinu þegar mannvirkið er risið. Þetta getur vissulega falið í sé auknari kostnað en útkoman er mun vandaðri.

Byggingartæknifræðingar og verkfræðingar eru með menntun í tæknilegum atriðum eins og lagna- og burðarþolshönnun sem arkitektar eru almennt ekki með. Þeirra vinna felst í að tæknilega sé húsið í samræmi við tæknilegar kröfur byggingarreglugerðar. Það er því grundvöllur að vandaðri byggingu gott samstarf arkitekta og tæknihönnuða.

Fyrir flesta eru fasteignakaup mesta fjárfesting sem ráðist er í á lífsleiðinni. Þess vegna er afar mikilvægt að vandað sé til verka á öllum stigum húsbyggingarinnar – og þar er hönnun ekki undanskilin. Það er líka mikilvægt að kaupendur þegar eldri fasteigna velti hönnun þeirra vel fyrir sér – og hvort hönnunin sé kaupanna virði. Að því sögðu eru meiri líkur á að fjárfestar fái sanngjarnara verð fyrir mannvirki sem unnin eru af gæðum og heilindum.