Kastalarnir þrír

Frá árinu 2017 hafa þrjú hús verið í hönnun og byggingu sem eru öll byggð í sömu línu. Forsagan er sú að ég var beðinn að hanna heimili fyrir æskuvin minn úr Borgarnesi og stækkandi fjölskylduna hans. Í framhaldi af því þegar sú hönnun var samþykkt af verkkaupanum hafði framkvæmdaraðilinn (líka honum tengdur) áhuga á svipaðri eða eins hönnun á tveimur öðrum lóðum. 

Rauða húsið, götuhlið

Aðstæður á þessum þremur lóðum eru allar frekar svipaðar. Þær eru staðsettar í nýjum hverfum höfuðborgarsvæðisins og eiga það sameiginlegt að lóðirnar eru frekar litlar og nýtingarhlutfall á þeim hátt. Þær standa allar í halla sem er upplagt að nýta í hönnunarferlinu, þ.e. Með tilliti til útsýnis af efri hæðunum. Útkoman eru hvíta, rauða og svarta húsið. 

Hvíta húsið, það er var upphaflega hannað og gaf stefið fyrir næstu tvö hús. Grundvallaratriðið var að slíta í sundur tvö megin notagildi hússins, það er nótt og dagur – svefn og vaka. Það lá best fyrir að skipta þessu tvennu á milli hæða (þó svo að vísu hafi svefnherbergi hjónanna verið staðsett uppi). Niðri eru rólegheitin og bílageymslan sem ekki er líklegt að sé í notkun seint á kvöldin. Uppi eru rýmin hugsuð út frá samveru fjölskyldunnar og vina. Það að hafa stofu, eldhús og borðstofu í sama rými gerir einmitt það: Fólk er einmitt saman þó svo að verið sé að elda eða leika. Stórir gluggar eru í sitthvoru enda hússins sem gerir það að verkum að íbúar skynja útisvæðið sem hluta af rýminu. Andrýmið og birtan er meiri sem að mínu mati eykur andlegt heilbrigði. Aftur á móti eru gluggar á hliðum takmarkaðir og litlir þar sem það er stutt í næsta hús. 

Svarta húsið. Stallar í húsinu er leikur að formfræði byggingarinnar og er innblásturinn fenginn frá skosku köstulunum.

Hvíta húsið er nú í byggingu og er áætlunin að það verði flutt inn um áramótin 2019-2020. Rauða húsið er í grófum dráttum eins og hvíta húsið, nema aðstæður þar eru að enn þéttar er skipilagt í götunni. Rauða húsið þarf að standa út og er með yfirlýsingu um að það sé smekksfólk sem þar býr og hönnunarlega sinnað. Rauði liturinn táknar kraftinn sem í íbúunum búa og er ytra byrgði hússins hraunað – allt til að húsið standi út í umhverfi sínu.

Rétt við húsið er svo svarta húsið þannig þessar „systur“ kallast á og er síðasta húsið sem er teiknað í þessari línu. Það er þó allt aðrar forsendur þar sem þetta er tvíbýlishús. Ég vildi halda í það að aðskilja dag og nótt í verkefninu, en á sama tíma að báðar íbúðirnar nytu kosti þess að vera á tveimur hæðum. Skipulagið á svæðinu leyfði kjallararými sem gaf aldeilis tækifæri til frekari nýtingu húsnæðisins. Íbúðirnar flæða því á milli hæða, og stærri íbúðin er á þremur hæðum. 

Hvíta húsið, útlit austur

Sama prinsipp er í hönnun þessara íbúða. Sofið – leikið – unnið það litla útsýni sem er frá húsinu er nýtt með stórum gluggum. Við hönnun þessara þriggja húsa leit ég mikið til kastalabygginga í Skotlandi sem eru svo dóminerandi í umhverfi sínu en þó einhvernveginn þannig að þeir hafa alltaf verið þarna. Áætlað er að flutt verði í Hvíta húsið nú um áramót og farið verður að framkvæma Rauða húsið fljótlega árið 2020. Svarta húsið er enn í hönnun og er áætlað að framkvæmdir hefjist á sumarmánuðum. 

 

Nánar um Hvíta húsið

Nánar um Rauða húsið

Nánar um Svarta húsið