Mig dreymdi draum

Mig dreymdi draum nú korter í jól. Kannski var ég í sykurvímu af öllu konfektinu og jólaölinu sem flæðir um allt en þetta er reyndar draumur sem mig dreymir reglulega. Þetta er framtíðarsýn Borgarness með nútímalegum áherslum og skoðunum sem mér persónulega finnst eigi að vera í forgangi þegar hannað og byggt er upp í mínum elskulega heimabæ. 

Vírnet og Vegagerðin höfðu flutt um set og höfðu byggt upp sína starfsemi í iðnaðarhverfi í norðurenda bæjarins. Í gamla húsnæði Vegagerðarinnar hafði byggst upp samgöngumiðstöð þar sem strætóar keyrðu vestur á Snæfellsnes, Vestfirði og norður í land. Borgarnes hafði orðið að mjög mikilvægri skiptistöð almenningssamgangna út á land fyrir höfuðborgarsvæðið, þar sem bærinn er staðurinn þar sem umferð kvíslast um nær allan vesturhelming landsins. Í kringum samgöngumiðstöðina hafði byggst upp blönduð byggð fyrirtækja og íbúða. Þarna var íbúðaturn hannaður í brútalískum stíl uppá heilar sjö hæðir en aðrar byggingar voru lægri. Í fyrirtækjunum vann fólk jafn úr bænum sem og af stærra svæði, því þarna stoppaði jú strætó úr Reykjavík og víðar og það var innangengt úr samgöngumiðstöðinni í þessi fyrirtæki. 

Hinum megin við Borgarbrautina var búið að byggja fleiri hús í stíl við Ánahlíð upp holtið og byggðin lá með klettinum en braut hann ekki niður. Í portinu bakvið heilsugæsluna var búið að byggja yfir grá (núverandi) bílastæðin og á þakinu var kominn garður fyrir íbúa dvalarheimilisins og eldri borgaranna í B65a. Á túninu við hliðina á B61 (Sjóvá og Tækniborg) var komið fimm hæða hús með verslun eða þjónustu á jarðhæð og íbúðum á eftri hæðum. Komin var aukahæð á sjálft Sjóvá húsið úr gleri. 

Búið var að rífa N1 og Hyrnutorg og þar í stað var komin byggð húsa allt frá tveimur uppí fimm hæðir max. Göngugata hlykkjaðist á milli þessara bygginga og bílaplön eru ekki áberandi. Þau voru þó þarna, en greinilega var fólk í forgangi en ekki bílar eins og í raunveruleikanum. Menntaskóli Borgarfjarðar var þarna í miklum forgangi, enda hafði fólk áttað sig á hversu mikið tímamótaverk húsið er. Húsið var komið með nýtt og þjálla nafn en MB var í algjörum blóma með áherslu á skapandi- og hátæknigreinar í náminu. Búið var að leggja Menntaskólatorg fyrir framan aðalinnganginn. Meðfram klettinum aftan við húsið var búið að byggja upp net lítilla íbúða, 25 m2 að stærð hver, sem er hugsuð sem heimavist fyrir menntaskólann og heimavist fyrir háskólanna tvo í sveitarfélaginu – en munum að frá þessum byggingum er þriggja mínútna göngufæri í samgöngumiðstöðina. Matvöruverslanir eru í nýju byggingunum en þær eru ekki eins og við eigum að venjast. Þær minntu helst á litlar hverfisbúðir, enda með 4. iðnbyltingunni fara stórinnkaup heimilisins fram á netinu og eru ýmist sendar heim að dyrum eða sóttar í þessar hverfisverslanir. Stúdentarnir eru duglegir að sækja þjónustu kaffihússins Geirabakarís, veitingastaða og afþreyingarstaða sem eru á svæðinu. Staðirnir njóta auk þeirra viðskipta við ferðamenn sem gista á hótelum bæjarins og svo auðvitað heimamanna. 

Menntaskólinn og Menntaskólatorg

Gangstéttarnar eru breiðari og það er komin hjólabraut á göturnar sem eru mun öruggari þar sem hámarkshraði er 30 km á klst. Fleiri kjósa því þá ferðamáta og rafhjól seljast eins og heitar lummur í hæðótta Borgarnesi. Þessi áhersla er í takt við að Borgarbyggð er heilsueflandi samfélag og fólk er hvatt til að ganga erinda sinna í heilsueflandi átakinu „göngum í vinnuna á innan við korteri“. Það gerir það að verkum að færri bílar eru á ferðinni. Við ferðumst eftir þessari braut niðrí gamla bæ sem við fyrstu sýn virðist ekkert svo breyttur. En þegar rýnt er í byggðamynstrið má sjá að búið er að þétta á hinu ýmsu stöðum. Einskismannslönd hafa verið byggð upp af litlum parhúsum eða fjölbýlum og gömul hús hafa verið friðuð og gerð upp eftir að fagleg húsakönnun var gerð í bænum. Gömul bílaplön og bílhræ sem víða er að finna heyra sögunni til. 

Skallagrímsgarður er eins og við þekkjum hann í dag en hann hefur stækkað. Dalhallinn, Kveldúlfsvöllur og tengd græn svæði (sem eru enn einskismannslönd) hafa runnið inní hann. Borgarbraut 25a er eitt af áðurnefndum friðuðu húsum og hefur verið gert upp og nýtist sem garðakaffi fyrir Skallagrímsgarð. Búið er að byggja stækkun við húsið á grunni hlöðunnar sem einu sinni stóð þarna. Borgarbrautin liggur á sama stað þrátt fyrir að Kveldúlfsvöllur er orðinn að hluta Skallagrímsgarðs, en umferðin er það hæg að þetta gengur allt upp. Íbúðarhúsin við Kveldúlfsvöll eru enn í einkaeigu með sínum lóðum, en eru afmörkuð frá Kveldúlfsvelli. Búið er að byggja stækkun við ráðhúsið á bílaplaninu þarna á Kveldúlfsvelli, og er húsið látlaust í umhverfi sínu. Í hinum enda garðins hefur eiginlega það sama gerst. Þorsteinsgata og Skallagrímsgata mætast neðanjarðar framan við Íþróttahúsið og garðurinn tengist húsinu ofanjarðar. Búið er að byggja við íþróttahúsið og þar er sérhæfð starfsemi fyrir ýmsar einstaklingsíþróttir, en hópíþróttir blómstra í nýrri höll í norðurhluta bæjarins og auka þannig á þjónustu í Bjargslandi. Á góðviðrisdögum er vinsælt að nýta Skalló í æfingar sem eykur á mannlífið í Skallagrímsdal. Sundlaugin hefur stækkað og þar er hægt að fara í náttúrulaugar í leirunum og á ylströnd í Borgarvoginum. 

Héríhöllin hefur verið gerð listalega vel upp – eiginlega endurbyggð og er stórglæsileg við Borgarbrautina. 1919 situr eins og rúbínn í kórónu í þessu umhverfi og er aftur orðið fallegasta hús bæjarins (sem er að vísu að gerast í raunveruleikanum sm eru aldeilis góðar fréttir!). Búið er að byggja upp beggja vegna Brákarbrautar og gamla kaupfélagshúsið við Egilsgötu hefur vikið fyrir lágreistari íbúabyggð. Útí Brákarey hafa mannvirkin þar tekið stakkaskiptum. BTB húsið hefur verið gert upp og í lengjunni meðfram Brákarbraut er fjölbreytt starfssemi. Allt frá járnsmíðaverkstæði til matargerðar. Hús sláturhússins og frystihússins hefur verið gert upp í anda Marshall hússins í Reykjavík eða Zollverein í Essen og viðburðir eru fjölbreyttir. Tónleikahald helst í hendur við dagskrá Græna hattsins á Akureyri og þarna fer fram sýningarhald á samtímalist og klassískri list. Borgarnes hefur þannig fest sig í sessi sem áfangastaður menningartengdrar ferðaþjónustu og er þekktur sem slíkur út fyrir landsteinanna, enda í skotfæri frá flugvellinum í Keflavík. Í eyjunni hafa verið byggð upp ný mannvirki með samtímahönnun og er það í takt við stefnu um fagurfræði í mannvirkjum sem sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti. Það var gert að fyrirmynd Stykkishólms frá 8. áratug 20. aldar þegar bæjaryfirvöld þar ákváðu að marka stefnu í uppgerð gamalla húsa á svæðinu. Rétt eins og þá þótti það vera brjálæði en borgaði sig svona heldur betur. 

Menning og skapandi greinar verða eitt af séreinkennum bæjarins – Mynd frá Plan-B Art Festival 2019

Þær stefnur í uppbyggingu sem hér á undan eru raktar hafa orðið til þess að Borgarnes er orðin mjög vinsæll staður til uppbygginar og bitist er um fasteignir í bænum. Þar sem menningin er orðin svo sterk er mikil afþreying sem eykur hamingjustig íbúanna. Fallegt umhverfi, fjölbreytt menning og auknara framboð af íþróttaiðkun laða að tekjuhærri íbúa og þannig aukast útsvarstekjur sveitarfélagsins meira per íbúa en nú þekkist. Fyrirtæki eru að borga minni húsnæðiskostnað þar sem þau eru ekki á höfuðborgarsvæðinu en geta í raun verið hvar sem er – þar sem þau starfa í hátæknigeiranum. Þannig er í draumnum íbúafjöldi bæjarins 4500-5000 manns. 

Þetta var einn af þessum draumum sem manni leiddist að vakna upp frá og maður óskar sér að þetta verði að veruleika. Margir geta sagt að þetta sé algjört brjálæði, en sannleikurinn er sá að við stöndum á tímamótum. Í hinum geysivinsæla útvarpsþætti „Bæjarmálin í beinni“ á Fm Óðal var sitjandi sveitarstjóri spurð hvernig hún sæi fyrir sér Borgarnes eftir tuttugu og eitthvað ár. Hún nefndi íbúafjölda uppá 5.000 manns. Mér fannst það æði en ég get ekki annað en hugsað til þess vaxtar sem hefur átt sér stað á stöðum eins og t.d. Selfossi. Gríðarlegur vöxtur en engin framþróun og byggt með því sniði eins og nú er að vera úrelt. Í því sem virðist vera stefnuleysi í uppbyggingu hafa verið gerð mistök og um of einblínt á skjótan gróða í formi gatnagerðagjalda. Orðrómurinn er að óánægja ríkir þar með uppbygginguna þar sem innviðir hafa ekki vaxið í takt við stækkandi byggðina. 

Ég vona að draumurinn minn rætist þrátt fyrir að froðufellandi fólk kann að æpa „ÞETTA ER EKKI HÆGT!“ Svo ég vitni í einn af mínum uppáhalds segi ég bara „You may say that I’m a dreamer, but I’m not the only one.“