901-MITCHELL ST. ART MUSEUM
Í miðborg Glasgowborgar kúrir við aðallestarstöðina lítil hliðargata sem er þó á besta stað í borginni. Á þröngri lóð við hlið eins af merkilegri söfnum borgarinnar sem hannað var af sjálfum Charles Rennie Mackintosh – Lighthouse, var byggt bílastæðahús sem er í hrópandi ósamræmi við klassískan arkitektúr, menningu og sögu staðarins. Eitt af verkefnum við Glasgow School of Art var að hanna listasafn í stað bílastæðahússins.
Aðstæður eru þannig að takmarkað náttúrulegt ljós skín á lóðina í þessum þéttbyggða hluta Glasgow og aðeins ein hlið byggingarinnar myndi snúa út á götu. Það gerist ekki meira urban en þetta. Hugmyndin var að hanna hús sem er innblásið af japanskri lukt, og þá er verið að horfa til aðdáunnar Mackintosh á japanski menningu. Luktin væri hins vegar úr skipastáli sem óður til stál- og skipaverksmiðja þessarar borgar. Að baki hússins kúrir enn minni gata sem er svo ómerkileg að hún hefur ekki nafn. Tillagan veitir þessari götu uppresit æru og býr til nýja möguleika á verðmætum fermetrum miðborgarinnar.
Þar sem náttúrulegt ljós er takmarkað er myrkum sölum fagnað í byggingunni. Þannig er horft til þess að myndlistin sé í aðalhlutverki. Veitingastaður og kaffihús eiga að auka á mannlíf svæðisins en þar sem dagsljós þó skín, á þaki byggingarinnar er garður.
///